Gamla höfnin hefur undanfarin ár tekið stakkaskiptum og er nú iðandi
af mannlífi og uppákomum. Við erum stolt af því að bætast í flóruna.

Ylfa Helgadóttir

yfirmatreiðslumeistari og eigandi, hefur vakið mikla athygli fyrir eldamennsku sína þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga í námi sínu og störfum auk þess að vera í kokkalandsliðinu. Hún lærði á Fiskmarkaðnum. Ylfa leggur mikið upp úr íslensku hráefni og óvæntum samsetningum.

ylfa@koparrestaurant.is

Ásta Guðrún Óskarsdóttir

framkvæmdastjóri og eigandi, hefur frá árinu 2003 starfað á nokkrum helstu veitingahúsum Reykjavíkur en hún er meðal annars einn af stofnendum Grillmarkaðarins. Ásta hefur mikla þekkingu á vínum og bókstaflega ástríðu fyrir kokteilum. Hún hefur ferðast um heiminn í leitinni að hinum fullkomna kokkteil. Ásta leggur mikið upp úr stemningunni í kringum máltíðina.

asta@koparrestaurant.is

Hugmynd

Allar sögur hafa upphaf. Saga Kopars hefst á ísköldu vetrarkvöldi í Reykjavík þar sem Ásta Guðrún Óskarsdóttir og Ylfa Helgadóttir sátu og drukku kaffi til að ná úr sér kuldahrollinum. Þær ræddu um ástandið í Grikklandi, uppskriftir frá Bourgogne og framtíðina, um hvað þær langaði að gera. Hugmyndin var fædd og ekki aftur snúið. Í samvinnu við gott fólk var lagður grunnur að veitingastað við höfnina þar sem lykilorðið var upplifun.

Andrúmsloft

Upplifun af veitingastöðum verður til úr ólíkum þáttum. Auðvitað er maturinn mikilvægastur en þjónusta, félagsskapur og umhverfi skipta líka máli. Kopar tekur inn áhrif úr umhverfi veitingastaðarins. Gamla höfnin, slippurinn, líflegur miðbærinn, gamalt og nýtt í óvæntri blöndu.

Maturinn

Sérstaða Kopars felst í spennandi hráefni og fjölbreyttum réttum. Á matseðlinum mætast nýjar og gamlar aðferðir og uppskriftir, hefðbundið hráefni og óvænt. Kopar er til dæmis fyrsti veitingastaður borgarinnar til að bjóða upp á íslenskan grjótkrabba. Brasserie-réttir Kopars veita gestum tækifæri til að kanna matarheiminn á einni kvöldstund á sanngjörnu verði. Brasserie-réttirnir eru smáréttir, gómsæt viðbót við hefðbundna forrétti, aðalrétti og eftirrétti.

Barinn

Óvænt og seiðandi eru lykilorðin á barnum. Hefðbundnir kokteilar innan um nýjustu straumum í kokteilgerð heimsins. Þú getur notið góðs drykkjar á hafnarveröndinni áður en þú sest við borðið þitt eða sest út með kaffi og koníak eftir góða máltíð. Ef veðrið er ekki samvinnuþýtt þá hitum við upp tilveruna með gaslömpum. Stolt barsins er Safn íslenska sjómannsins, veggur með ótrúlegu úrvali af koníaki og viskíi.

Gamla höfnin

Reykjavík er fiskiþorp. Við gömlu höfnina iðar allt af lífi. Þaðan er róið til sjávar að morgni og þegar líður á daginn sigla trillurnar inn með afla dagsins. Á bryggjunni finnur maður fyrir sögu Reykjavíkur og öllu lífinu við höfnina, hvort sem það er fólk að störfum við sjávarútveg, fólk á gönguferð eða krakkar sem koma með stangirnar sínar og freista þess að veiða fisk á bryggjusporðinum.
Ferskt og kraftmikið andrúmsloft hafnarinnar er hluti af upplifuninni þegar þú borðar á Kopar.